Helstu stjörnur Hollywood hafa í dag minnst kanadíska stórleikarans Christophers Plummers sem lést í gær, 91 árs að aldri, á heimili sínu í Connecticutríki í Bandaríkjunum.
Plummer hlaut Óskarsverðlaun árið 2012 sem besti leikari í aukahlutverki fyrir hlutverk í kvikmyndinni Beginners. Auk þess var hann tilnefndur til verðlaunanna fyrir leik í kvikmyndunum The Last Station frá árinu 2010, og All the Money in the World frá árinu 2018. Plummer vann að auki Tony-verðlaun, Golden Globe, SAG-verðlaun og Bafta.
Frú Julie Andrews, sem lék með Plummer í kvikmyndinni Sound of Music, sagði Plummer hafa verið „meistaralegan leikara og dáðan vin“.
„Heimurinn hefur í dag misst meistaralegan leikara og ég hef misst dáðan vin. Ég geymi dýrmætar minningar af samstarfi okkar og öllum þeim húmor og því fjöri sem við deildum í gegnum árin,“ skrifaði Andrews.
Lou Pitt, vinur Plummers til 46 ára, lýsti Plummer sem „einstökum“ manni sem „dáði og bar mikla virðingu fyrir atvinnu sinni“.
„Hann var þjóðargersemi sem var mjög umhugað um kanadískar rætur sínar. Hann snerti hjörtu okkar allra á goðsagnakenndri ævi sinni og hans verður áfram minnst af komandi kynslóðum,“ sagði Pitt.
Leikarinn Joseph Gordon Levitt minntist Plummers sem „eins af þeim bestu“.
Á meðal frægustu kvikmynda Plummers voru The Insider, The Girl With The Dragon Tattoo, Knives Out, Star Trek og Beautiful Mind.
Chris Evans, sem lék með Plummer í Knives Out, sagði að fáir hefðu átt jafn langan og áhrifaríkan feril og Plummer. „Ótrúlegur missir,“ sagði Evans. „Ein af uppáhaldsminningunum mínum úr Knives Out var þegar við spiluðum saman á píanóið. Hann var dásamlegur maður með goðsagnakennda hæfileika.“