Gagnrýnendur og aðdáendur hafa fagnað nýrri heimildarmynd sem ber titilinn Framing Britney Spears og hefur verið sýnd í Bandaríkjunum.
Myndin er framleidd af The New York Times og fjallar um frægð söngkonunnar og deilur um velferð hennar.
„Heimildarmyndin tekur þátt í gagnrýnu samtali sem er nú að eiga sér stað um konur, lögræði og áföll,“ sagði blaðamaður NBC, Patricia Grisafi og bætti við:
„Í takt við hefðina um sögur af „geðveikum konum á háaloftinu,“ spyr Framing Britney Spears hvað gerist þegar dyrnar opnast og við sjáum ekki froðufellandi kellingu heldur vísbendingar um að hér sé sérstök og fullkomlega hæf manneskja sem nýtur góðs af þroskandi vinnu, tíma með börnunum sínum og Instagram-aðgangi sínum.“
Faðir Britney, Jamie Spears, hefur verið lögráðamaður hennar í 12 ár, vegna áhyggja af geðheilsu hennar. Í nóvember var ósk hennar synjað fyrir dómstólum um að hann yrði ekki aftur gerður lögráðamaður hennar, en hann hafði stigið tímabundið til hliðar vegna veikinda ári áður
Málaferlin hafa átt sér stað samhliða #FreeBritney-hreyfingunni, sem leidd er af aðdáendum Britney sem telja að henni sé stjórnað gegn vilja hennar.
Heimildarmyndin skoðar ekki aðeins flókna söguna að baki málaferlunum heldur einnig meðferðina sem Britney hlaut þegar hún ólst upp í sviðsljósinu.
Margir aðdáendur fögnuðu heimildarmyndinni og því að hún væri frekari vísbending um hvernig komið hefur verið fram við söngkonuna í gegnum tíðina.
Þá lýstu stjörnurnar einnig yfir stuðningi. Leikkonurnar Sarah Jessica Parker og Bette Midler tístuðu slagorðinu #FreeBritney og Miley Cyrus sagði „Við elskum Britney!“ í atriði sínu fyrir Super Bowl.