Leikkonan Evan Rachel Wood nafngreindi tónlistarmanninn Marilyn Manson í síðustu viku sem ofbeldismann sinn. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum um helgina að hún hefði kært eiginkonu Mansons, Lindsay Usich, í desember síðastliðnum. Usich á að hafa hótað að birta myndir af Wood.
Myndirnar sem um ræðir voru teknar af Wood þegar hún var undir lögaldri að því er fram kemur á vef ET. Wood segir að búið hafi verið að gefa sér mikið af áfengi og fíkniefnum þegar myndirnar voru teknar á hrekkjavökunni í Las Vegas eftir tónleika Mansons. Markmið myndbirtinganna var að sögn Wood að eyðileggja feril hennar og þagga niður í henni.
Wood og Manson byrjuðu saman þegar hún var 19 ára og hann 38 ára. Þau tilkynntu trúlofun sína árið 2010 en trúlofuninni lauk sjö mánuðum síðar.