Eins og að spila dúett með skáldinu

Tónskáldið María Huld fylgist hér með upptökunum á verkum sínum …
Tónskáldið María Huld fylgist hér með upptökunum á verkum sínum í Hallgrímskirkju. „Allt situr rétt og galdrarnir eru leystir úr læðingi við flutninginn“ – þannig lýsir hún söng Schola Cantorum sem flytur verkin hennar. Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Á nýrri plötu tónskáldsins Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttur, Kom vinur, sem bandaríska útgáfan Sono Luminus gefur út, eru tvö kórverk eftir Maríu samin við ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur skáld sem varð níræð á liðnu ári. Verkin tvö, „Kom vinur“ og „Maríuljóð“, eru flutt af Schola Cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar en upptökunum, sem fóru fram í Hallgrímskirkju í haust sem leið, stýrði Kjartan Sveinsson.

Mörg fyrri verka Maríu hafa áður verið gefin út í útgáfum á vegum Sono Luminus. Þar má nefna „Oceans“ sem samið var fyrir og flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar á plötunni Concurrence sem á dögunum hlaut tilnefningu til Grammy-verðlauna. Auk þess að vera mikilvirk við tónsmíðar sínar hefur María Huld um langt árabil starfað með hljómsveitinni Amiinu.

María Huld segir rætur þessara tveggja kórverka liggja til þess tíma er hún var staðartónskáld Sumartónleika í Skálholti 2017. „Ég fékk þá það verkefni að semja kórverk fyrir Hljómeyki og byrjaði á að leita að heppilegum texta að semja við. Ég las fyrst ljóðasafn Vilborgar og valdi að semja verk við ljóð hennar „Kom vinur“. Ég breytti því svo aðeins fyrir þessa útgáfu núna en þetta er samt sama verkið,“ segir hún.

María Huld og Kjartan Sveinsson.
María Huld og Kjartan Sveinsson. Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

„Mér fannst margt í vinnuferlinu við að semja kórverkið vera heillandi og það kveikti í mér að halda áfram svo ég samdi við annað ljóð Vilborgar, „Maríuljóð“. Ég naut þess í senn að kafa í innihald ljóðanna og vinna með innri ryþma þeirra. Mér fannst þetta bæði gaman og gefandi og það myndaðist tenging við orðin sem mér þótti vænt um – og það er líklega ástæða þess að ég gef lögin út núna svona tvö ein. Mig langaði með útgáfunni að skila einhverju til baka til Vilborgar og hylla hana. Hún átti stórafmæli á síðasta ári og mig langaði að þakka henni fyrir innblásturinn.“

Ýtir undir hughrif

Í kórverkunum er í senn höfugur og blíður andi. Þegar María Huld er spurð um aðferð sína við að semja fyrir kór, þá segist hún ekki hafa mætt ljóðum Vilborgar með neinum fyrirframgefnum hugmyndum. „Ég reyndi að láta textann stjórna mér og ráða ferðinni. Mér fannst ég vera auðmjúkur þjónn ljóðanna.

Strax við lestur „Kom vinur“ hreifst ég af andrýminu í því hvernig línurnar eru settar upp og ég fylgdi því í tónlistinni; reyndi að gefa í tónlistinni gott rými fyrir hugsunina í þessum stóru og oft mögnuðu línum. Mig langaði að ýta undir þau hughrif sem ég fann fyrir í ljóðlínunum, og vera með einhvers konar músíkalskt stækkunargler á ljóðið.

„Maríuljóð“ er örlítið öðruvísi, í því tilfelli fannst mér vera mikil heiðríkja og hálfgerð lotning barns fyrir undrum náttúrunnar og heimsins. Og mig langaði að draga þá stemningu fram.“

Ljósmynd/Lilja Birgisdóttir

Þegar María Huld er spurð að því hver sé meginmunurinn á því að semja verk fyrir annars vegar hljóðfærasamsetningu og hins vegar kór, þá segir hún að í tilfelli þessara kórlaga finnist henni hún hafa verið í „einhvers konar þjónustuhlutverki. Mér finnst eins og ég væri næstum því að spila dúett með ljóðskáldinu. Og það var falleg samvinna sem dró fókusinn frá einstaklings-egóinu í eitthvað kollektíft.“

Hún bætir við að hér á landi sé mikil og ríkuleg kórahefð en þegar tónskáld hafi samið kórlög hafi þau iðulega verið eins og utan við ramma annarra verka sem þau hafa samið.

„Svo er annað þessara laga minna samið við Maríuljóð en hér hafa ófá gullfalleg lög verið samin við Maríukvæði. Til dæmis af Þorkeli Sigurbjörnssyni og Atla Heimi. Þeir sömdu þau samtímis og þeir sömdu allt annars konar tónlist fyrir hljóðfæri.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 5. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney