Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, voru gestir Einars Þorsteinssonar í Kastljósi á RÚV í kvöld. Þar var rætt um niðurstöðu fundar þeirra við Pfizer í dag, þar sem fram kom að ekki yrði af tilraunaverkefni lyfjaframleiðandans hér á landi.
Þórólfur og Kári hafa ásamt öðrum átt í samskiptum við fyrirtækið í von um að koma fjöldabólusetningartilraun í kring hér á landi.
Þeir voru spurðir hvernig samskiptin þeirra á milli hefðu verið, í ljósi þess að í sumar virtist um hríð hafa kastast í kekki á milli þeirra. Kári hafi hótað að loka á símanúmerið hans Þórólfs.
Í kvöld staðfestu þeir að það hafi hann aldrei gert.
„Mér þykir mjög vænt um Þórólf og við höfum ekki átt í neinum erfiðleikum með að vinna saman,“ sagði Kári.
„Við höfum átt frábært samstarf og ræðum bara málin. Auðvitað erum við sammála oft og ósammála oft, eins og gengur,“ sagði Þórólfur þá.
„En þá erum við ósammála í mjög stuttan tíma,“ bætti Kári við.
„Mjög stuttan,“ tók Þórólfur undir.
Fram undan er að þreyja þorrann og góuna og bíða bólusetningar í gegnum samninga Evrópusambandsins. „Við verðum ekki búin að bólusetja meiri hluta þjóðarinnar fyrr en kemur fram á haust,“ sagði Kári.