Lögráðamannsmál tónlistarkonunnar Britney Spears verður aftur tekið fyrir hjá dómara í þessari viku. Málið hefur farið hátt í fjölmiðlum undanfarna daga en á föstudag gaf New York Times út heimildamynd um málið.
Nú greinir NYT frá því að málið fari fyrir dómara í vikunni þar sem tekist verður á um hver muni hafa stjórn yfir hennar persónulegu málum sem og fjármálum hennar.
Faðir hennar Jamie Spears hefur verið lögráðamaður hennar undanfarin 12 ár en Britney vill losna undan föður sínum og hafa lögmenn hennar barist fyrir því síðastliðna mánuði.
Britney hefur ekki tjáð sig beint um heimildamynda en í færslum á Instagram og Twitter í gær, þriðjudag, virtist hún tjá sig óbeint um myndina. „Ég mun alltaf elska að fara á sviðið, en ég er að taka mér tíma í að læra og að vera venjuleg manneskja. Ég elska hversdagsleikann,“ skrifaði Britney í færslu með myndbandi af sjálfri sér á sviðinu. „Munið að hvað sem við höldum að við vitum um líf annarrar manneskju er það ekkert í samanburði við hvað hin raunverulega manneskja er að upplifa hinum megin við linsuna,“ skrifaði Britney.
Málið verður tekið fyrir hjá dómara í Los Angeles á morgun, fimmtudag.