Djasspíanistinn Chick Corea er látinn, 79 ára að aldri. Fjölskylda hans greinir frá þessu á heimasíðu hans. Banameinið var sjaldgæf tegund krabbameins.
Corea átti að baki fimm áratuga feril í listinni, en hann vakti athygli sem afburðagóður píanóleikari á sjöunda áratugnum þegar hann vann með mönnum á borð við Stan Getz, Herbie Mann og fleiri. Síðar gekk hann til liðs við hljómsveit Miles Davis og lék lykilhlutverk í að hjálpa trompetleikaranum Davis í að færa sig í átt að nútímalegri tónlist á plötum eins og Bitches Brew.
Hann stofnaði eigin hljómsveit, Return to Forever, en í grein Rolling Stones er henni lýst sem byltingarkenndri raftónlistarsveit sem spilaði einhverja líflegustu og kvikustu tóna síns tíma.
Næstu áratugina tók Corea þátt í fjöldamörgum verkefnum, frá samstarfi við víbrafónleikarann Gary Burton til eigin hljómsveitar, Elektric Band. Síðustu plötu sína, Plays, gaf hann út í fyrra.
„Það sem tónlist gerir, hef ég tekið eftir, er að hún örvar það sem er náttúrulegt í okkur,“ sagði Corea í viðtali við Jazz Times í fyrra. „Það er eðlislægt öllum. Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í neinu – allt sem þú þarft er að vera lifandi mannvera, opin fyrir því að leika með ímyndunaraflið.“