Larry Flynt, stofnandi klámblaðsins Hustler, er látinn, 78 ára að aldri. Flynt, sem gafst upp á skólagöngu í níunda bekk, byggði upp viðskiptaveldi á klámi og rak auk tímaritsins strippklúbba og kynlífstækjaverslanir. Voru fyrirtæki hans metin á um 400 milljónir dala (51 milljarð króna).
Þegar mest lét á miðjum áttunda áratugnum var upplag tímaritsins Hustler um þrjár milljónir eintaka
Ástæða andlátsins var hjartabilun, að sögn bróður hans Jimmy Flint. Lést hann í faðmi dóttur sinnar og eiginkonu, Elizaneth Berros, þeirrar fimmtu í röðinni.
Flynt var ötull baráttumaður fyrir fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar, sem tryggir meðal annars rétt fólks til tjáningarfrelsis. Frægt var þegar Hustler-blaðið birti skopsögu af sjónvarpsprédikaranum Jerry Falwell, þar sem prédikarinn var látinn rifja upp sögur af kynlífi með móður sinni.
Falwell stefndi Flynt fyrir meiðyrði og fór fram á 45 milljónir bandaríkjadala í bætur. Kviðdómur hafnaði kröfunni en úrskurðaði þó að Falwell skyldi fá 200.000 dali í bætur fyrir tilfinningalegan skaða af völdum grínsins. Málið endaði á borði Hæstaréttar, sem ógilti úrskurð kviðdómsins og komst samhljóða að þeirri niðurstöðu að greinin félli innan tjáningarfrelsisákvæða stjórnarskrárinnar, sem pólitísk satíra.
Árið 1978 var Flynt skotinn á leið sinni í dómshús í Georgíu-ríki og var eftir það lamaður að neðan. Árásarmaðurinn var Joseph Paul Franklin, hvítur yfirburðasinni sem var ósáttur við að pör af ólíkum uppruna sæjust á síðum Hustlers. Franklin var síðar fundinn sekur um nokkur morð og var hann tekinn af lífi árið 2013.