Hjónaband Teds Dansons og Mary Steenburgen er eitt það farsælasta í Hollywood en leikarahjónin hafa verið gift í 25 ár. Þau Danson sem er 73 ára og Steenburgen sem er 67 ára byrjuðu saman á réttum tíma en minnstu munaði að þau lékju saman í mynd þegar þau voru ekki tilbúin hvort fyrir annað.
Danson fór í áheyrnarprufu fyrir myndina Cross Creek sem kom út árið 1983 en fékk ekki hlutverkið. Í myndinni hefði hann leikið eiginmann Steenburgen. „Það er kraftaverk af því ég var í algjörri vitleysu þá,“ sagði Danson. „Ég var gift, hann var kvæntur. Þetta var ekki okkar tími,“ bætti Steenburgen við.
Tíu árum síðar hrepptu þau bæði hlutverk í myndinni Pontiac Moon og höfðu þau bæði ákveðið að vera bara einhleyp. Danson var nýhættur með leikkonunni Whoopi Goldberg auk þess sem hann var skilinn við eiginkonu númer tvö, Casey Coates. Steenburgen var sömuleiðis skilin við leikarann Malcolm McDowell.
„Við getum auðvitað ekki verið í sambandi,“ hugsuðu þau bæði með sér. Danson var viss um að hann gæti eyðilagt allt saman og hann væri ekki sú manngerð sem ætti að vera í sambandi.
„Ég var ekki tilbúin í neitt sem líktist sambandi,“ sagði Steenburgen. „Við héldum bara áfram að vinna saman og urðum betri og betri vinir.“
Eftir bátsferð og lautarferð í Kaliforníu varð þó ekki aftur snúið. Nú hafa hjónin verið gift í 25 ár og eru enn yfir sig ástfangin.