Hollensku konungshjónin Willem-Alexander og Maxima hafa sjaldan verið óvinsælli. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem hollenski sjónvarpsþátturinn Nieuwsuur lét gera á síðasta ári og birti nú á dögunum.
Í apríl á síðasta ári báru um 76% aðspurðra enn mikið traust til þeirra en þetta hlutfall féll niður í 47% í desember síðastliðnum. Þá jókst líka hlutfall þeirra sem sögðust vera afar ósáttir við kónginn og fór frá því að vera 3% upp í 14%.
Margt kann að útskýra þessa óánægju. Á haustmánuðum fór konungsfjölskyldan í frí til Grikklands þegar enn voru miklar takmarkanir við lýði í Hollandi vegna kórónuveiru-faraldursins. Þau hlutu mikla gagnrýni fyrir, svo mikla að þau gáfu út sérstaka afsökunarbeiðni og héldu rakleiðis heim aftur. Þá kom einnig í ljós að kóngurinn hafði keypt rándýra lúxussnekkju fyrir fríið og sat það ekki vel í hollensku þjóðinni.