Díana prinsessa sagði milljarðamæringnum Warren Buffet að sér þætti Bill Clinton kynþokkafyllsti maður í heimi. Gamalt viðtal við Buffet á CNBC hefur farið á flug að undanförnu að því er fram kemur á vef People en þar lýsir hann samskiptum sínum við prinsessuna.
Buffet sagðist hafa hitt Díönu tvisvar. Í fyrra skiptið var hann í veislu með henni og einhvern veginn enduðu þau saman inni á bókasafni í 15 mínútur. Buffet sagðist hafa verið svo stressaður að hann hefði átt erfitt með að koma fyrir sig máli. „Ég átti erfitt með að muna nafn mitt, ég gat ekki sagt neitt, það var algjör hörmung,“ sagði Buffet.
Buffet hitti Díönu aftur í boði hjá fyrrverandi ritstjóra Washington Post stuttu áður en Díana lést árið 1997. Fjölmiðlar reyndu að fá út úr veislugestum hvað Díana hefði talað um. Buffet sagði ekki mikið fyrr en 15 árum seinna í viðtalinu sem nú hefur farið á flug.
„Hún hafði verið í Hvíta húsinu daginn áður og sagði að Bill Clinton væri kynþokkafyllsti maður í heimi,“ sagði Buffet. Hann lét það kyrrt liggja að spyrja hver væri sá ókynþokkafyllsti í heimi enda hræddur um að hún myndi nefna sig.