„Ég held að það sé farið að líða yfir smádömurnar hérna í hrönnum. Það er hoppað, klappað og öskrað í takt við músíkina,“ sagði húsvörðurinn í Laugardalshöllinni í samtali við Morgunblaðið meðan á tónleikum sænsku glysrokkaranna í Europe stóð sumarið 1987.
Tónleikarnir vöktu mikla lukku enda sænsku glysrokkararnir sjóðheitir á þeim tíma. Andrés Magnússon, umsjónarmaður Rokksíðunnar í Morgunblaðinu, var svo vinsamlegur að birta textann við vinsælasta lag Europe, The Final Countdown, í heild sinni á síðunni enda gúgl bara fjarstæðukennt rugl á þessum árum. Á sjötta þúsund manns fyllti Laugardalshöllina og stemningin var mikil.
Tónleikaárið 1987 var gjöfult hér um slóðir. Þannig stakk sjálfur Kjöthleifur, Meat Loaf, við stafni í október. Í samtali við blaðamann við komuna til landsins kvartaði hann undan jökulnæðingnum hér við nyrstu voga en sagðist þó vera ýmsu vanur, enda byggi hann í New York og þar væri oft ansi kalt. Hann kvaðst einnig vera vel upplagður fyrir tónleikana enda líf hans og yndi að koma fram á sviði.
Árni Matthíasson var fulltrúi Morgunblaðsins í Reiðhöllinni, þar sem Kjöthleifur tróð upp. „Sviðsframkoma Meat Loaf var greinilega vel til þess fallin að ná til áheyrenda og það gekk eftir,“ sagði hann í umsögn sinni. „Þó fólst hún ekki í öðru en að strunsa fram og aftur á sviðinu og glenna sig framan í hljóðfæraleikara og áheyrendur. Einna mesta hrifningu vakti þegar hann hristi sig og skók og var hann í svitabaði áður en langt um leið.“
Það var breski tónlistarmaðurinn Bobby Harrison, sem bjó hér á þeim tíma, sem flutti þessa listamenn inn og fleiri þetta ár, svo sem a-ha og Cock Robin. Vorið 1988 kom svo Boy George.
Tónleikar Kjöthleifs voru umdeildir enda var ölvun víst mun meira áberandi en á tónleikum a-ha og Europe. Það varð til þess að lögreglan bannaði tónleikahald í Reiðhöllinni eftir klukkan 19 á kvöldin.
Bobby Harrison ritaði grein í Morgunblaðið, þar sem hann viðurkenndi að gagnrýnin væri réttmæt en misráðið væri eigi að síður að setja slíkt bann. „Ég vil hvetja alla þá sem tónleika sækja í framtíðinni að skilja flöskuna eftir heima. Með því vinna þeir tvennt. Þeir njóta þess betur sem tónlistarmennirnir hafa fram að færa auk þess sem þeir munu þá sanna, eins og á tónleikum „Europe“ og „A-Ha“, að þeir geti komið saman og skemmt sér á heilbrigðan hátt,“ skrifaði hann.
Bobby Harrison er líklega frægastur fyrir að hafa verið um skeið í Procol Harum á sjöunda áratugnum. Hann er 81 árs gamall í dag.
Nánar er fjallað um tónleikaárið 1987 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.