Fyrirsætan Cara Delevingne eignaðist hlut í kynlífsleikfangafyrirtæki síðasta haust. Síðan þá hafa vinir hennar fengið óvenjulega gjafir frá henni en hún er dugleg að senda þeim kynlífsleikföng.
„Ég sendi kynlífsleikföng. Ég var bara: gleðilega fullnægingu,“ sagði Delevingne í hlaðvarpsþætti tónlistarmannsins Pharrells Williams. Vinir hennar voru vissir um að fá kynlífsleikföng í jólagjöf.
Delevingne kýs að tala um kynlífstæki í stað kynlífsleikfanga enda hlutirnir ekki ætlaðir börnum. Hún segir kynlífstæki ekki nauðsynleg en þó mikilvægt að breyta umræðunni og geiranum. Fyrirsætan, sem starfar einnig sem ráðgjafi fyrir fyrirtækið, segir að lengi vel hafi kynlífsleikföng verið búin til af körlum og fyrirtækin rekin af karlmönnum. Segir hún að sum unaðstæki henti ekki endilega öllum konum sem hún lýsir sem viðkvæmum manneskjum.