Leikkonan Mia Farrow og börn hennar Dylan og Ronan Farrow koma fram í nýjum heimildarþáttum HBO, Allen v. Farrow. Í þáttunum er kafað ofan í samband Farrow við fyrrverandi mann hennar, kvikmyndaleikstjórann Woody Allen.
Dylan Farrow, sem var ættleidd af Allen og þáverandi konu hans, Miu Farrow, hefur greint frá því hvernig Allen beitti hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var sjö ára gömul árið 1992. Skilnaður þeirra var afar hatrammur en Allen yfirgaf konu sína fyrir ættleidda dóttur hennar úr fyrra hjónabandi, Soon-Yi Previn, sem var 21 árs á þessum tíma.
Í stiklu fyrir þættina er því lýst hvernig samband Farrow og Allens hafi litið út fyrir að vera fullkomið. Annað hafi þó komið í ljós. „Ég var svo ótrúlega glöð en það er helsta eftirsjá mín í lífinu. Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei hitt hann,“ segir Farrow í stiklunni.
Farrow lýsir því líka þegar hún fann myndir af Soon-Yi Previn, ættleiddri dóttur sinni, á heimili Allens. Segist hún hafa átt erfitt um andardrátt þegar hún áttaði sig á hvað hefði mögulega átt sér stað milli leikstjórans og Previn sem þá var tvítug. Previn og Allen gengu í hjónaband í lok árs árið 1997.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá stikluna en þættirnir verða frumsýndir á sunnudaginn.