Breska konungsfjölskyldan hefur áhyggjur af viðtali sem Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan hertogaynja eru að fara í til Opruh Winfrey. Tilkynnt var um viðtalið í vikunni, en það mun fara í loftið hinn 7. mars næstkomandi.
Samkvæmt heimildarmönnum Page Six er bróðir Harrys, Vilhjálmur Bretaprins, sérstaklega áhyggjufullur en fyrirhugað viðtal er sagt minna fjölskylduna á hið alræmda viðtal sem Díana prinsessa fór í hjá Martin Bashir árið 1995. Þar lét hún meðal annars falla setninguna frægu: „Við vorum þrjú í þessu hjónabandi, svo það var frekar margt um manninn.“
Fréttir af viðtalinu við Opruh koma þó fjölskyldunni ekki í opna skjöldu samkvæmt heimildamanninum heldur hefur fjölskyldan vitað af því í nokkurn tíma.
Harry og Meghan stigu til hliðar í konungsfjölskyldunni í janúar á síðasta ári og hafa síðan í mars 2020 búið í Bandaríkjunum. Heimildamaðurinn telur þá bræður ekki vera í reglulegum samskiptum, en ákvörðun Harrys og Meghan er sögð hafa valdið illdeilum milli fjölskyldnanna tveggja.