„Yljar auðvitað um hjartarætur“

„Að baki hverri þýðingu liggur ómæld vinna og heilabrot og …
„Að baki hverri þýðingu liggur ómæld vinna og heilabrot og það er gleðilegt þegar fullbúin þýðing ratar loksins á bók og er tekið fagnandi,“ segir Guðrún Hannesdóttir sem hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2021 þegar þau voru afhent á Gljúfrasteini fyrir stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta yljar manni auðvitað um hjartarætur. Að baki hverri þýðingu liggur ómæld vinna og heilabrot og það er gleðilegt þegar fullbúin þýðing ratar loksins á bók og er tekið fagnandi,“ segir Guðrún Hannesdóttir sem hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2021 þegar þau voru afhent á Gljúfrasteini fyrir stundu í 17. sinn. Verðlaunin hlýtur Guðrún fyrir þýðingu sína á Dyrnar eftir Mögdu Szabó sem Dimma gefur út.

Íslensku þýðingaverðlaunin, sem Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefanda standa að, hafa verið veitt árlega frá 2005. Verðlaunin voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa Íslendingum vandaðar erlendar bókmenntir á íslensku.

„Þýðingar af erlendum málum eru sjálfstætt og dýrmætt framlag til íslenskrar menningar. Þær eru mikilvægar íslenskri tungu og þróun hennar og þróun innlendra bókmennta ekki síður. Þær eru auk þess gluggi út í heiminn og auðvelda okkur að skilja framandi menningarheima og samfélög og gaman að taka þátt í því,“ segir Guðrún.

Spurð hvort viðurkenningin hafi komið henni á óvart svarar Guðrún því játandi. „Í ár eru tilnefndar til verðlaunanna þýðingar á klassískum verkum og öndvegisverkum sem unnin eru af alúð og metnaði og það hlýtur að vera erfitt að gera upp á milli. En það sama hefur verið upp á teningnum síðan fyrst var farið að veita verðlaunin. Ég held að margir yrðu stórhrifnir við að lesa listana og rifja upp bæði tilnefnd verk og verðlaunaverk á þessu tímabili og að sama skapi miður sín við tilhugsunina um hvað við hefðum farið á mis við ef þau hefðu ekki verið þýdd.“

Blæbrigðaríkt og lífmikið mál

Auk Guðrúnar voru tilnefnd þetta árið Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fyrir þýðingu sína 43 smámunir eftir Katrinu Ottarsdóttur sem Dimma gefur út; Heimir Pálsson fyrir þýðingu sína Leiðin til Klukknaríki eftir Harry Martinson sem Ugla útgáfa gefur út, Magnús Sigurðsson fyrir þýðingu sína Berhöfða líf eftir Emily Dickinson sem Dimma gefur út; Sigrún Eldjárn fyrir þýðingu sína Öll með tölu eftir Kristin Roskifte sem Vaka-Helgafell gefur út; Þórarinn Eldjárn fyrir þýðingu sína Hamlet eftir William Shakespeare sem Vaka-Helgafell gefur út og Þórdís Gísladóttir fyrir þýðingu sína Álabókin eftir Patrik Svensson sem Benedikt útgáfa gefur út. 

Í dómnefnd þetta árið sátu Elísabet Gunnarsdóttir, sem var formaður, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason. Umsögn þeirra um vinningsþýðinguna er svohljóðandi: „Magda Szabó fæddist í Austurísk-ungverska keisaradæminu árið 1917 og lést í Ungverjalandi 2007. Eftir hana liggja margbreytilegar ritsmíðar en frægasta verk hennar er skáldsagan Dyrnar sem kom út 1987 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Sagan er sögð byggjast að einhverju leyti á lífi höfundarins en aðalpersónurnar eru annars vegar virtur rithöfundur, vel menntuð og félagslynd kona sem hefur mörg járn í eldinum og svo næstum ólæs ráðskona hennar sem engum hleypir inn til sín eða nærri sér.


Guðrún Hannesdóttir hefur þýtt þessa sérkennilegu bók á einstaklega blæbrigðaríkt, kjarnyrt og lífmikið mál svo haft hefur verið á orði að helst mætti ætla að sagan hafi verið skrifuð á íslensku. Samt byggist þýðing Guðrúnar á enskri verðlaunaþýðingu og þótt ekki sé sjálfgefið að texti lifi af svo bugðóttan feril tekst henni að skila lesandanum ítrekuðum tilvitnunum í sögu og bókmenntir jafnframt því að fylgja eftir átökum og vináttu kvennanna tveggja þar sem fast er haldið utan um orðin og aftur af þeim, þar til allt springur.“

Ítarlegar er rætt við Guðrúnu Hannesdóttur í Morgunblaðinu mánudaginn 22. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir