Vilhjálmur Bretaprins segir að afi hans, Filippus hertogi af Edinborg, sé í lagi. Filippus var lagður inn á spítala á þriðjudaginn síðastliðinn í forvarnarskyni. Vilhjálmur heimsótti bólusetningarstöð í Norfolk í dag þar sem hann var spurður út í líðan afa síns.
Ekki hefur verið gefið upp hvað hrjáir hinn 99 ára gamla hertoga, en höllin gaf það út að hann væri ágætlega hress fyrir helgi. Veikindin tengjast ekki kórónuveirunni, en hann hefur fengið fyrsta skammt af bóluefni gegn veirunni.
„Þau eru bara að fylgjast með honum,“ sagði prinsinn þegar hann var spurður út í heilsu afa síns.
Karl Bretaprins, elsti sonur Filippusar, heimsótti hann á spítalann á laugardag og olli það þó nokkrum áhyggjum í Bretlandi sem og annars staðar. Strangar sóttvarnareglur eru í gildi í Bretlandi og hafa takmarkanir verið á heimsóknum á spítala. Það þótti því skjóta skökku við að prinsinn hafi fengið að ferðast frá heimili sínu í Gloucestershire til Lundúna til að heimsækja föður sinn, sem var að sögn hallarinnar við ágæta heilsu.
Hertoginn verður 100 ára þann 10. júní næstkomandi en hann var síðast lagður inn á spítala í desember 2019 og dvaldi þar fjórar nætur.