Franski leikarinn Gérard Depardieu hefur verið ákærður fyrir nauðgun á tvítugri konu. Nauðgunin á að hafa átt sér stað árið 2018.
Málið hafði áður verið rannsakað en látið niður falla vegna skorts á sönnunargögnum. Það var þó tekið upp aftur og kæra lögð fram í desember síðastliðnum samkvæmt The Guardian.
Depardieu sem er 72 ára er sagður hafa ráðist á hana og nauðgað á heimili hennar í París árið 2018. Hann er sagður vinur fjölskyldu hennar. Lögfræðingur Depardieu neitar öllum ásökunum fyrir hönd skjólstæðings síns.
Lögfræðingur konunnar óskar eftir að einkalíf hennar sé virt á meðan málið er í ferli.