Breski grínleikarinn Ricky Gervais stefnir á að klára tökur á After Life í vor. Þetta er í fyrsta skipti sem grínistinn gerir þriðju þáttaröð en fleiri verða þáttaraðirnar ekki. Gervais lýsti þessu yfir í breskum sjónvarpsþætti í vikunni.
„Þetta er fyrsta skipti sem ég geri þriðju þáttaröð af einhverju. En mér fannst það rétt. Ég féll fyrir persónunum og þetta átti að vera svona,“ sagði Gervais. „Ég er of feitur og of gamall. Nú er komið nóg. Ég get ekki meira,“ sagði Gervais um endalokin og skellti upp úr.
Heimurinn kynntist Gervais fyrst þegar hann sló í gegn í bresku sjónvarpsþáttunum The Office, sem hann leikstýrði, lék í og skrifaði handrit að ásamt Stephen Merchant. Þetta var árið 2001. Gervais segir þó að engin verk hans hafi slegið jafnrækilega í gegn og After Life-þættirnir. Aðdáendur Gervais eiga von á góðu en eftir After Life byrjar hann að vinna að nýjum verkefnum fyrir Netflix.