Tvíeyki myndlistarmaður ársins

Frá vinstri Libia Castro, Ólafur Ólafsson, Kristín Jónsdóttir og Una …
Frá vinstri Libia Castro, Ólafur Ólafsson, Kristín Jónsdóttir og Una Björg Magnúsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensku myndlistarverðlaunin voru afhent í gær í Listasafni Íslands af mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, en markmiðið með þeim er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða aðra myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar, eins og því er lýst í tilkynningu.

Veittar voru tvær viðurkenningar og verðlaun í tveimur flokkum, þ.e. myndlistarmaður ársins, hvatningarverðlaun, heiðursviðurkenning fyrir útgefið efni, sem er ný viðurkenning, og loks heiðursviðurkenning til handa listamanni.

Myndlistartvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin í ár fyrir verkið „Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“; heiðursverðlaun hlaut Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá; ritröð Listasafns Reykjavíkur hlaut viðurkenningu fyrir útgáfu og Una Björg Magnúsdóttir hlaut Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund í D-sal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi.

Myndlistarráð tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar en í ráðinu situr fulltrúi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Listasafni Íslands og Listfræðafélagi Íslands ásamt tveimur fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Áræðið og úthugsað

Verk Libiu og Ólafs, „Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“, var sýnt í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi og á götum úti við Stjórnarráðið og við Alþingishúsið 3. október í fyrra í samstarfi við tónlistar- og myndlistarhátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík. Í umsögn dómnefndar segir að tvíeykið hafi sviðsett, í samvinnu við Töfrateymið, stóran myndlistarviðburð sem sé fjölradda tónlistar- og myndlistargjörningur við 114 greinar nýrrar stjórnarskrár Íslands sem kosið hafi verið um í október 2012. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 20. október það ár og taldi meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Segir í umsögninni að þar hafi farið „áræðið og úthugsað þátttökuverk sem varpi ljósi á mátt listarinnar og efni til umræðu um sjálfan grunn samfélagssáttmálans“. „Listin og töfrarnir geta leyst okkur úr álögum og hvatt okkur til þess að taka þátt. Tvíeykið vill heyra raddirnar, okkar allra sem lifum í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi og skapa til þess listrænan vettvang,“ segir þar og að verkið sé ákall um aðgerðir og vandað tónlistar- og myndlistarverk sem snerti marga innan lista sem utan.

Ákall eftir nýrri stjórnarskrá hefur verið áberandi til hin síðustu ár og spurningin „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ birst víða um borg. Ólafur og Libia klæddust í gær flíkum með áletrunum svipaðs efnis. „Við viljum nýju stjórnarskrána í gagnið sem fyrst, takk“ stóð á stuttermabol Libiu og blaðamaður freistaði þess að fá svar frá Ólafi við spurningunni kunnu um hvar nýja stjórnarskráin væri. „Hún var skrifuð árið 2011 og samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og því máli hefur ekki verið opinberlega lokið og þar af leiðandi er það opið. Það hefur ekki verið rökstutt opinberlega af hverju ekki sé hægt að fara að ósk kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ svarar Ólafur sem afhenti mennta- og menningarmálaráðherra texta nýju stjórnarskrárinnar í gær þegar þau Libia tóku við verðlaununum.

Ólafur segir að spurningin um hvar nýja stjórnarskráin sé endurspegli þá þöggun og höfnun sem ríki um málið. Hann er spurður að því hvort boðskapur listarinnar sé þeim Libiu mikilvægari en fagurfræðin og segir hann svo ekki vera. Þetta tvennt renni saman og listamenn sæki í umfjöllunar- og yrkisefni sem séu þeim mikilvæg og fegurðin auðvitað afstæð. Libia segir að í myndlist sé ekki hægt að skilja fagurfræðina frá innihaldi verksins. „Fagurfræðin er líka farartækið og tungumálið sem verður til út frá hinni listrænu tilraun,“ bendir hún á. Þá byggi fagurfræðin líka á myndlistarsögunni, því sem á undan hefur komið.

Siðferðileg álitamál

Um heiðursviðurkenningarhafann Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá segir í umsögn dómnefndar að með íhugulum verkum sínum hafi hún vakið okkur til umhugsunar um siðferðileg álitamál í fortíð og nútíð og beint sjónum okkar að tímanum, hverfulleikanum, viðkvæmri náttúru landsins og tjáningarríku tungumálinu. Auk þess hafi Kristín fært menningarsögulega mikilvægan efnivið, ´íslensku ullina, inn í samtímalistina og sýnt fram á hvílíkan fjársjóð þjóðin eigi í henni. Kristín hefur verið virkur félagi í Textílfélaginu og var brautryðjandi hér á landi við gerð verka úr þæfðri ull.

Kristín fæddist að Munkaþverá í Eyjafirði árið 1933 og segist hafa ákveðið að kenna sig við heimabæinn eftir að hún hélt sýningu og áttaði sig á því að fólk ruglaði henni saman við alnöfnu hennar, þekkta myndlistarkonu. Kristín er enn að í listinni og segist nú vera að finna til og raða upp gömlum verkum og ákveða hvað gera eigi við þau. Vinnustofan sé orðin svo full af verkum að hún þurfi að vinna við borðstofuborðið. Í þakkarræðu sinni sagði Kristín frá því þegar hún tilkynnti foreldrum sínum að hún ætlaði í myndlistarnám og átti þá eitt ár eftir í stúdentspróf. Foreldrunum leist heldur illa á þessa ákvörðun en Kristín segist aldrei hafa séð eftir því að hafa helgað sig myndlistinni.

Heimur blekkinga heillar

Una Björg Magnúsdóttir hlaut Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Una er fædd árið 1990, lauk BA-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands 2014 og stundaði síðar MA- nám í myndlist við École cantonale d'art de Lausanne í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Í umsögn dómnefndar segir að sýningin Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund setji fram heillandi en jafnframt afhjúpandi sjónarspil blekkinga er veki spennu og undrun í ófyrirsjáanlegri atburðarás.

„Í rýminu blasir við formfagur skápur eftir heilum vegg, en á móts við hann er stór mynd í gylltum ramma þar sem sveigður penni teiknar í átt að polli. Hann er hvort tveggja kunnuglegur og óþægilega óraunverulegur. Úr miðju langa skápsins rís hægt og rólega sjónvarpsskjár sem staðnæmist. Á honum kviknar óendanleg víðátta, flögrandi skýjahnoðrar fyrir framan alheiminn. Undir himinhvolfinu er magnþrungin kyrrð. Hendi er veifað og fingrum smellt fyrir framan skýin og þau hverfa, skjárinn er dauður og fer að síga hægt niður í skápinn. Yfirborð skápsins er plastkennt og á honum er kæruleysislegt far eftir kaffibolla og lyklakippu jafn óþægilega óraunveruleg og penninn á myndinni. Allt er nákvæmlega á sínum stað í tómarúminu sem andar og skapar eftirvæntingu um að skjárinn rísi að nýju. Heimur blekkinga heillar jafnvel þótt hann sé afhjúpaður,“ segir í umsögninni en titill sýningarinnar er fenginn að láni frá sjónhverfingarmanninum David Copperfield sem lét fólk hverfa sporlaust á sviði í Las Vegas.

Einstakt og mikill heiður

Una hefur áður hlotið verðlaun fyrir listsköpun sína, á meðan hún var í námi í Sviss og hún er spurð að því hvernig tilfinning það sé að hljóta Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna. Hún segist fyllast mikilli auðmýkt. „Það eru svo margir frábærir myndlistarmenn á Íslandi og það er einstakt og mikill heiður að fá að standa með þessum listamönnum,“ segir Una.

Titill sýningar hennar í D-sal í fyrra er sóttur í sjónhverfingar Davids Copperfield, sem fyrr segir, og hún er spurð að því hvort hún hafi sérstakan áhuga á töfrabrögðum. „Já ... af því það eru alltaf tvær hliðar á performansinum og báðar eru jafnáhugaverðar,“ svarar hún. Þessar tvær hliðar komi fram í listsköpun hennar, meðvitað og ómeðvitað.

En hvað er næst á dagskrá? Er sýning á dagskránni? „Vonandi samsýning í Aþenu. Kling og Bang er að skipuleggja að senda 18 íslenska myndlistarmenn til Aþenu að vinna þar,“ svarar Una. Hvers vegna til Aþenu? „Af því að í Aþenu er álíka öflugt myndlistarsamfélag og hér, rekið af myndlistarmönnum af þrautseigju og hugsjón þar sem myndlistin skiptir mestu máli,“ svarar Una.

Hún segir að lokum mikilvægt að fram komi að þótt íslenskt samfélag sé lítið sé myndlistarsamfélagið öflugt en mætti gera sér betur ljóst að hér hafi byggst upp fjölmenning. „Við verðum að horfa til allra og endurspegla það og ég held að myndlist sé akkúrat fagið til þess,“ segir hún.

Metnaðarfull útgáfa

Myndlistarráð veitti ritröð Listasafns Reykjavíkur viðurkenningu fyrir útgáfu sem fylgir yfirlitssýningum á Kjarvalsstöðum á verkum myndlistarmanna á miðjum ferli. „Þegar hafa verið haldnar fjórar yfirlitssýningar í þessari sýningaröð og hefur hverri sýningu fylgt bók sem jafnframt er sýningarskrá. Metnaður er lagður í útgáfuna, sem er bæði á íslensku og ensku. Í hverri bók er að finna myndir af verkum listamannsins ásamt vönduðum greinum fræðafólks og listamannsins sjálfs – sem dýpkar skilning á höfundaverki listamannsins,“ segir í tilkynningu og að í skrifum Listasafns Reykjavíkur segi að sýningarnar séu hluti af viðleitni safnsins til að skrá og greina íslenska listasögu í gegnum veglegar sýningar og útgáfu. „Safnið hefur valið listamenn sem á heilsteyptum ferli sínum hafa skilað markverðu framlagi til þróunar íslenskrar myndlistar,“ segir þar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar