Tveir hundar söngkonunnar Lady Gaga, sem rænt var á miðvikudag, eru komnir í leitirnar heilu og höldnu. Ekki liggur fyrir hvernig hundarnir fundust, en AP-fréttaveitan segir að kona hafi komið með þá á lögreglustöð í Los Angeles. Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglu var konan þó ekki viðriðin ránið.
Vopnaðir menn réðust á aðstoðarmann Lady Gaga, Ryan Fischer, á miðvikudagskvöld þar sem hann var úti að ganga með hundana. Skutu þeir Fischer fjórum sinnum í bringuna og höfðu á brott með sér tvo hunda, Koji og Gustav. Fischer er á batavegi og er búist við að hann nái sér að fullu.
Hundarnir eru söngkonunni kærir og tekur hún þá oft með sér á verðlaunahátíðir eða aðra viðburði. Í færslu sem Lady Gaga setti á Twitter í gærkvöldi hét hún 500.000 dölum (62 m.kr.) í fundarlaun.