Mikill fögnuður greip um sig meðal fólks af asískum uppruna þegar Chloé Zhao skráði sig á spjöld sögunnar með því að verða fyrsta asíska konan til að hljóta Golden Globe-verðlaunin fyrir leikstjórn í gærkvöldi fyrir kvikmyndina Nomadland. Myndin var einnig valin besta drama myndin á hátíðinni sem fór fram rafrænt í ár.
Chloé Zhao er fædd í Kína en hún er önnur konan sem er valin leikstjóri ársins á Golden Globe. Sú fyrsta var Barbara Streisand árið 1984. Streisand óskaði Zhao til hamingju á Twitter með þessum orðum: „Kominn tími til.“
Í ár gerðist það í fyrsta skipti að fleiri en ein kona var tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir leikstjórn því auk Zhao voru þær Regina King og Emerald Fennell einnig tilnefndar.
Myndin segir frá Fern, sem Frances McDormand leikur, sem býr í litlum bæ í Nevada. Hún heldur af stað í ferðalag á sendiferðabíl eftir að hafa tapað öllu í kreppunni miklu. Hún kannar tilveruna utan við hið hefðbundna samfélag og lifir lífinu eins og nútímahirðingi.
Nomadland hlaut þrenn verðlaun samtaka gagnrýnenda, Critics' Circle, þegar þau voru afhent í London í byrjun febrúar. Nomadland var valin besta mynd ársins, Frances McDormand var valin besta leikkonan og leikstjórinn Zhao hreppti verðlaun fyrir besta handrit. Nomadland hafði áður hlotið Gullna ljónið á Feneyjahátíðinni. McDormand var hins vegar ekki valin leikkona ársins í gærkvöldi því það var Andra Day fyrir túlkun á einni helstu jazzsöngkonu sögunnar, Billie Holiday, í kvikmyndinni The United States vs. Billie Holiday.
Mynd Sacha Baron Cohen, Borat Subsequent Moviefilm, var valin besta grínmyndin og Cohen besti leikarinn.
Netflix-þáttaröðin The Crown bar höfuð og herðar yfir aðra sjónvarpsþætti á Golden Globe í gærkvöldi enEmma Corrin var valin besta leikkonan í fjórðu þáttaröðinni um bresku konungsfjölskylduna og Josh O'Connor besti leikarinn. Gillian Anderson var valin best í aukahlutverki en hún fór með hlutverk Margaret Thatcher.
Kanadíska sjónvarpsþáttaröðin Schitt's Creek var valin besta gamanþáttaröðin og Catherine O'Hara besta leikkonan í gamanþáttaröð fyrir hlutverk sitt í þáttunum.
The Queen's Gambit á Netflix var valin besta stutta þáttaröðin og aðalleikkonan í þáttunum, Anya Taylor-Joy, var valin sú besta í stuttum þáttaröðum. Alls hlutu Netflix-þáttaraðir sex verðlaun á hátíðinni.