Annað undanúrslitarkvöld Skrekks, hæfileikahátíðar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, fór fram í kvöld í Borgarleikhúsinu. Hlíðaskóli með atriðið Beirútin mín og Langholtsskóli með atriðið Boðorðin 10 komust áfram í úrslit.
Atriði sex grunnskóla í Reykjavík voru sýnd í kvöld en auk þeirra skóla sem fara áfram í úrslitin stigu Fellaskóli, Víkurskóli, Ölduselsskóli og Hagaskóli á svið í kvöld.
Ingunnarskóli og Seljaskóli komust áfram í úrslit úr fyrsta undanúrslitakvöldinu sem fram fór í gær.
Átján grunnskólar taka þátt í Skrekk í ár en átta þeirra munu keppa til úrslita þann 15. mars. Um 400 unglingar taka þátt í frumsömdum atriðum sinna skóla og spreyta sig í leiklist, söng, dansi, hljóðfæraleik, búningahönnun, förðun, ljósum, hljóði og annarri sviðsvinnu.
Dómnefnd í undanúrslitum skipa þau Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður, Sigurður Andrean Sigurgeirsson dansari, Rakel Björk Björnsdóttir leikkona, Bryndís Gunnlaugsdóttir frá ungmennaráði Samfés og Sif Gunnarsdóttir, formaður dómnefndar.