Leikkonan Angelina Jolie fékk 1,4 milljarða króna fyrir einstakt málverk eftir Winston Churchill. Málverkið setti hún á uppboð nú í mars. Christie's í London annaðist uppboðið en málverkið keypti Jolie upphaflega með fyrrverandi eiginmanni sínum Brad Pitt árið 2011.
Málverkið Tower of the Koutoubia Mosque málaði breski forsætisráðherrann í seinni heimsstyrjöldinni. Er þetta talið vera eina verkið sem hann málaði á þessu tímabili en Churchill var afkastamikill áhugamálari. Churchill gaf Franklin D. Roosevelt, þáverandi Bandaríkjaforseta, málverkið í afmælisgjöf árið 1943.
Áður höfðu þeir Churchill og Roosevelt setið Casablanca-fundinn fræga, en Churchill dvaldi degi lengur í borginni til að mála málverkið. Gjöfin þótti heldur einstök á sínum tíma og merki um persónulega nálgun Churchills í milliríkjasamskiptum. „Þetta er ekki hefðbundin gjöf sem leiðtogar ríkja skiptast á. Þetta er mjúkt vald, og það er það sem þeirra samband snerist um,“ segir Nick Orchard hjá Christie's.
Sonur Roosevelts seldi málverkið eftir að faðir hans lést árið 1945. Nokkrir áttu það áður en Jolie og Pitt keyptu það.
Churchill byrjaði að mála tiltölulega seint á ferlinum eða um fertugt. Hann var heillaður af Marrakesh í Morokkó og ráðlagði meðal annars Roosevelt að heimsækja borgina eftir að þeir höfðu setið fundinn í Casablanca. Hann heimsótti landið fyrst árið 1935 og varð ástfanginn af litunum þar. Hann heimsótti landið alls 26 sinnum á ferli sínum.