Tónlistarkonan Taylor Swift skaut föstum skotum að streymisveitunni Netflix í gær þegar hún tjáði sig um brandara sem varðar hana í þáttunum Ginny & Georgia sem komu inn á veituna nýlega.
Í þáttunum er grínast með kærastafjölda Swift þegar mæðgurnar Ginny og Georgia rífast um sambönd. Þegar móðirin spurði dóttur sína hvort hún hefði hætt með kærastanum sínum svaraði hún: „Af hverju kemur það þér við? Þú ferð hraðar í gegnum kærasta en Taylor Swift.“
Aðdáendur Swift vöktu fyrst athygli á brandaranum og Swift hefur greinilega heyrt gagnrýni þeirra.
„Hey Ginny & Georgia, 2010 hringdi og vill fá lélega kvenrembubrandarann sinn aftur. Hvernig væri ef við myndum hætta að niðurlægja konur sem leggja hart að sér með því að skilgreina svona hrossaskít sem fyndinn,“ skrifaði Swift.
Netflix hefur ekki enn svarað gagnrýninni og ekki heldur höfundar Ginny & Georgia.
Ástarmál Swift hafa löngum verið gagnrýnd í fjölmiðlum en hún hefur átt nokkra kærasta, þar á meðal Harry Styles, Tomm Hiddleston og DJ Calvin Harris. Hún hefur þó verið með kærastanum sínum Joe Alwyn í nokkur ár núna.
Hey Ginny & Georgia, 2010 called and it wants its lazy, deeply sexist joke back. How about we stop degrading hard working women by defining this horse shit as FuNnY. Also, @netflix after Miss Americana this outfit doesn’t look cute on you 💔 Happy Women’s History Month I guess pic.twitter.com/2X0jEOXIWp
— Taylor Swift (@taylorswift13) March 1, 2021