Meghan Markle, hertogaynja af Sussex, hefur gefið í skyn að Buckingham-höll hafi breitt út ósannindi um hana og eiginmann hennar, Harry Bretaprins, í broti úr viðtali sem Oprah Winfrey tók við hana.
Þegar hún var spurð af Winfrey hvað henni fyndist um að Buckingham-höll heyrði þessi ummæli hennar, sagði Markle: „Ég veit ekki hvernig þau geta búist við því, eftir allan þennan tíma, að við höldum okkur til hlés þegar hópurinn er að breiða út ósannindi um okkur.“
Brotið úr viðtalinu var birt af sjónvarpsstöðinni CBS eftir að Buckingham-höll sagðist ætla að rannsaka fregnir í fjölmiðlum um ásakanir þess efnis að Markle hafi lagt starfsfólk í einelti er hún bjó í Kensington-höll. Viðtalið var tekið áður en ásakanirnar voru birtar opinberlega. Það verður birt í heild sinni 7. mars.
„Við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur vegna ásakananna í The Times vegna þess sem fyrrverandi starfsfólk hertogans og hertogaynjunnar af Sussex hélt fram ... hópurinn okkar mun skoða kringumstæðurnar,“ sagði í yfirlýsingu frá Buckinham-höll í gær. Talið er að ásakanirnar nái aftur til október 2018.
Áður hafði Markle sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. „Hertogaynjan er leið yfir þessari nýjustu árás á persónu hennar, sérstaklega þegar hún hefur sjálf orðið fyrir einelti,“ sagði talsmaður hennar.