Armenía mun ekki senda keppanda í Eurovision-söngvakeppnina í ár. Ríkissjónvarpið í Armeníu, AMPTV, tilkynnti þetta í dag. Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að hafa lagt sig öll fram við að skipuleggja framlag til keppninnar hafi verið ljóst að þau myndu ekki ná að setja saman framlag fyrir síðasta skiladag á lagi sem er í þessum mánuði.
Í tilkynningu frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva segir að Eurovision-samfélagið sé miður sín yfir því að Armenía hafi dregið sig úr keppni í ár. Armenía hafi alltaf komið með spennandi atriði í keppnina en að sambandið skilji vel þær ástæður sem armenska ríkisútvarpið hafi gefið fyrir ákvörðun sinni.
40 lönd munu því keppa í Eurovision-söngvakeppninni sem fer fram í dagana 18., 20. og 22. maí næstkomandi.