Samband tónlistarhjónanna Katharine McPhee og Davids Fosters átti sér langan aðdraganda. McPhee sem er 36 ára og Foster 71 árs féllu ekki hvort fyrir öðru á einni nóttu. Tónlistarkonan hafði til að mynda áhyggjur yfir skoðunum fólks.
McPhee segir fólk eiga það til að dæma annað fólk og hluti eftir því hvernig aðstæður líta út. „Ég skil dómhörkuna en aðstæður eru aldrei eins og þær virðast vera og ég elska ástarsöguna okkar og það er það eina sem skiptir máli,“ sagði McPhee í hlaðvarpsþættinum Dr. Berlin's Informed Pregnancy.
Hjónin eignuðust nýverið son en tónlistarkonan kynntist Foster þegar hann var leiðbeinandi hennar í American Idol-þáttunum. Þau urðu síðan vinir og töluvert seinna hófst ástarsamband þeirra. Hún sagði slúðurmiðla hafa áttað sig á hvað var í gangi á milli þeirra áður en hún áttaði sig á því sjálf. „Það tók mig langan tíma að átta mig á að mig langaði í alvörusamband af því ég var með áhyggjur af skoðunum annarra,“ sagði McPhee.
„Þegar konur eru annars vegar er fólk með þá hugmynd að þetta sé alltaf konunni að kenna,“ sagði McPhee. „Það er konan sem vill eldri mann af því hann á peninga og hann er farsæll og hún vill þetta og hitt,“ hélt McPhee áfram og sagði að þeirra saga væri algjör andstæða.