Íslenska kvikmyndin Þorpið í bakgarðinum verður frumsýnd 19. mars í Háskólabíói. Marteinn Þórsson leikstýrir myndinni en Laufey Elíasdóttir og Tim Plester fara með aðalhlutverk.
Sögunni vindur fram á þremur dögum skömmu fyrir jól í Hveragerði. Brynja, sem er 40 ára, yfirgefur Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands – heilsuhælið – eftir dvöl sem að öllum líkindum var of stutt. Skömmu áður hafði móðir hennar samband eftir 35 ára þögn. Hún fór út í heim frá eiginmanni og tveimur barnungum dætrum og nú ætla mæðgurnar þrjár að hittast, en Brynja hættir við á síðustu stundu, ákveður að vera áfram í Hveragerði, nú á gistiheimilinu Backyard Village. Þar kynnist hún Mark og þau leggja drög að vináttu. Þá fer af stað atburðarás sem er stundum grátbrosleg, yfirleitt óvænt en alltaf einlæg um þann ásetning persónanna að finna færa leið gegnum lífið.