Lars-Göran Petrov, betur þekktur sem L-G Petrov, söngvari sænsku dauðarokksveitarinnar Entombed, lést í gær, 49 ára gamall, eftir eins árs baráttu við ólæknandi krabbamein. Eftirlifandi liðsmenn sveitarinnar, sem nú heitir reyndar Entombed A.D., greina frá þessu á heimasíðu hennar og kveða þar skarð fyrir skildi eftir góðan vin.
„Það er með harmi sem við tilkynnum að okkar elskaði vinur Lars-Göran Petrov hefur yfirgefið okkur. Bróðir okkar, leiðtogi, söngvari og erkiuppreisnarengillinn okkar hélt í annað ferðalag í gærkvöldi. Hann var (er!!!) okkur ótrúlegur vinur og manneskja sem hefur snert svo marga. Þau líf eru óteljandi sem hann hefur breytt með rödd sinni, tónlist og einstökum persónuleika,“ skrifa þeir félagar, Nico Elgstrand, Guilherme Miranda og Olle Dahlstedt, í eftirmælum um söngvara sinn og klykkja út með því að hann muni ávallt lifa í hjörtum þeirra.
Entombed var stofnuð í Svíþjóð árið 1987 og gekk í byrjun undir nafninu Nihilist. Segja má að sveitin hafi verið einn af brautryðjendum sænsku dauðarokksenunnar og hefur verið talin til hinna fjögurra fræknu, eða „the big four“ í sænsku dauðarokki ásamt Dismember, Grave og Unleashed.
Platan Left Hand Path frá 1990 er talin höfuðverk sveitarinnar en Clandestine, sem kom út árið eftir, hlaut einnig verðskuldaða athygli. Entombed kom tvisvar sinnum fram á tónleikum á Íslandi, 2009 á Sódómu og 2012 á Gauki á Stöng.