Breski sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur sagt upp störfum sínum í fréttaþættinum Good Morning Britain.
Daily Mail greinir frá og segir hann hafa orðið slaufunarmenningu (e. cancel culture) að bráð eftir að hann lét ummæli um Meghan Markle, hertogaynju af Sussex, falla þess efnis að hann tryði ekki orði sem hún segði í viðtali þeirra hjóna við Opruh Winfrey.
Morgan stóð svo upp og gekk út í beinni útsendingu í morgunþættinum Good Morning Britain í morgun þegar Alex Beresford gagnrýndi hann fyrir að tala illa um Markle.
Yfir 40 þúsund kvartanir bárust Ofcom, eftirlitsstofnun með fjölmiðlum og fjarskiptum í Bretlandi, vegna ummæla og hegðunar Morgans. Ofcom tilkynnti í dag að ummælin yrðu rannsökuð eftir kvartanaflóðið.