Tónlistarmaðurinn The Weeknd ætlar aldrei aftur að mæta á Grammy-verðlaunahátíðina. Tónlistarmaðurinn tók þessa ákvörðun eftir að hann var ekki tilnefndur til verðlauna í ár þrátt fyrir að eiga ein vinsælustu lögin síðastliðið árið.
The Weeknd hefur harðlega gagnrýnt hátíðina síðan í ljós kom að hann myndi ekki hljóta tilnefningu. Í nýrri tilkynningu segir hann að hann muni ekki leyfa útgáfufyrirtækinu sínu að senda lögin hans inn til dómnefndar Grammy-verðlaunanna.
Grammy-verðlaunin verða afhent á sunnudagskvöldið.
Í tilkynningunni sagði The Weeknd enn fremur að hann ætlaði ekki að mæta aftur á hátíðina fyrr en akademían leysti upp „leynilegar nefndir“ sem ákveða stóran hluta tilnefninganna.
Grammy-verðlaunin eru þekkt fyrir að vera með ógegnsæja atkvæðagreiðslu þar sem nefndir ákveða tilnefningar til 72 verðlauna af 83. Þá er á huldu hverjir sitja í nefndunum.
Fleiri hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag í vikunni en tónlistarmaðurinn Zayn Malik lét líka í sér heyra.