Vinsældir Harrys Bretaprins og Meghan hertogaynju hafa dvínað allverulega meðal Breta síðan viðtalið við þau hjá Opruh Winfrey var sýnt. Samkvæmt könnun sem birt var í dag höfðu 48% neikvæða skoðun á hjónunum en 45% jákvæða skoðun.
Þetta er í fyrsta skipti sem fleiri eru neikvæðir í garð þeirra en jákvæðir. Aðeins 30% voru jákvæð í garð Meghan og 58% neikvæð í garð hennar.
Það má með sanni segja að Opruh-viðtalið fræga hafi haft mikil áhrif síðan það var sýnt á sunnudag. Í viðtalinu sökuðu þau bresku konungsfjölskylduna um kynþáttafordóma og greindi Meghan frá því að hún hefði glímt við sjálfsvígshugsanir á meðan þau bjuggu enn í Bretlandi.
Bil er á milli kynslóða hvað varðar skoðun á þeim hjónunum en meirihluti fólks á aldrinum 18 til 24 ára sagði að sér líkaði vel við Harry og Meghan. Í aldurshópnum yfir 65 ára sagðist mikill meirihluti vera neikvæður í garð þeirra.
Eini meðlimur konungsfjölskyldunnar sem féll líka í vinsældum hjá bresku þjóðinni var Karl Bretaprins en 42% sögðust neikvæð í garð hans og 49% jákvæð.
Til samanburðar nýtur hin 94 ára gamla Elísabet Englandsdrottning vinsælda hjá 80% þjóðarinnar. Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja njóta einnig vinsælda en 75% þjóðarinnar sögðust jákvæð í garð þeirra.