Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson tók lagið og sagði vel valin orð áður en leikur KR og Vals í Dominosdeild karla í körfubolta fór fram gærkvöldi. Högni, sem spilaði körfubolta með Val, fjallaði um mál spænska rapparans Pablos Haséls og tjáningarfrelsið. Leikmenn liðanna spiluðu í sokkum til styrktar mannréttindastarfi Amnesty International.
Sokkarnir sem körfuboltakapparnir klæddust eru hannaðir af Bergi Guðnasyni fatahönnuði og á þeim stendur „Hvað eru mannréttindi?“. Með viðburðinum vildi Íslandsdeild Amnesty International vekja athygli á að það eitt að tjá skoðanir sínar eru mannréttindi sem eru varin í alþjóðalögum. Aðgerðasinnar frá Háskólafélagi Amnesty International söfnuðu undirskriftum fyrir mál Pablos Haséls.
Spánverjinn Pablo Hasél var handtekinn í febrúar og gert að sæta níu mánaða fangelsisvist eftir að hafa verið fundinn sekur um að vegsama hryðjuverk, og fyrir ærumeiðandi ummæli í garð spænsku krúnunnar og ríkisstofnana. Málið snerist um röð twitterfærslna þar sem Hasél kallaði Spánarkonunginn fyrrverandi, Jóhann Karl fyrsta, mafíuleiðtoga og sakaði lögreglu um að hafa pyntað og myrt mótmælendur og flóttamenn.
Viðburðurinn fór vel fram, mikill fjöldi undirskrifta safnaðist og sokkar seldust vel. Auk Bergs hönnuðu þær Anita Hirlekar og Aldís Rún sokka fyrir Amnesty. Hægt er að nálgast sokkana á vef Íslandsdeildar Amnesty, í Kiosk í Grandagarði, verslunum Hagkaups og Ungfrúnni góðu.