Utangarðsmenn á nálum

Steve Jones, lengst til hægri, ásamt félögum sínum í Sex …
Steve Jones, lengst til hægri, ásamt félögum sínum í Sex Pistols árið 1977. AFP

Hver man ekki eftir ofurbandinu Neurotic Outsiders sem starfaði um hríð á tíunda áratugnum og stóð saman af mönnum úr gjörólíkum áttum? Tja, ekki ég. Þannig að ég lagðist í rannsóknir.

Öll þekkjum við Sex Pistols, Duran Duran og Guns N’ Roses. Þrjú gjörólík bönd sem öll voru leiðandi á sínu sviði dægurtónlistar, pönki, nýbylgjupoppi og hörðu rokki, á áttunda og níunda áratugi seinustu aldar. Tvö þau síðastnefndu halda meira að segja enn velli. Hitt er sjaldgæfara, að sjá þessi bönd nefnd í sömu andrá eins og ég leyfi mér að gera hér – og er sjálfsagt þegar búinn að ganga svo hressilega fram af einhverjum að þeir eru steinhættir að lesa. Þeir missa þá af þeim tíðindum, hafi þeir ekki vitað það fyrir, að þessi ágætu bönd eiga sér mjög ákveðinn snertiflöt. Það er hljómsveitin Neurotic Outsiders sem starfaði um skamma hríð á tíunda áratugnum með menn úr téðum böndum innanborðs.

Ég verð að viðurkenna að ég man ekkert eftir þessu bandi, rakst bara á þessa staðreynd þegar ég var að gúgla Steve Jones, gítarleikara Pistols, í hálfkæringi á dögunum og fann mig knúinn til að deila þessu með ykkur. Það er eitthvað skemmtilega galið við Neurotic Outsiders. Utangarðsmenn á nálum, gæti það útlagst á hinu ástkæra ylhýra, ekki satt?

Ruglið þeim alls ekki saman við okkar eigin Utangarðsmenn, Bubba, Pollockana og þá, sem á sinni tíð voru geislavirkir. Bubbi hefði svo sem tekið sig vel út í Neurotic Outsiders en því miður hafði enginn rænu á að bjalla í hann.

Svo við byrjum nú bara á byrjuninni þá var Jones alls ekki í bandinu í upphafi; hryndeildin úr Guns N’ Roses, Matt Sorum og Duff McKagan, stofnuðu það ásamt söngvaranum geðþekka Billy Idol og gítarleikaranum Steve Stevens. Ekki lækkar sýrustigið við það – enda þótt sú liðsskipan gangi á margan hátt betur upp. Þegar bandið var upphaflega vatni ausið hlaut það nafnið Neurotic Boy Outsiders.

Idol og Stevens hurfu á braut eins skjótt og þeir birtust, eins Boy-liðurinn í nafninu. Hvort það var af tillitssemi við Boy George, sem var á dýpstu halamiðum í sínu skrautlega lífi á þessum tíma, skal ósagt látið.

John Taylor í banastuði á tónleikum Duran Duran í Egilshöll …
John Taylor í banastuði á tónleikum Duran Duran í Egilshöll árið 2005. Árni Torfason


Víða liggja þræðirnir

Inn komu Steve Jones og John Taylor, bassaleikarinn úr Duran Duran.
Ég botnaði hvorki upp né niður í tengingunni og hélt því grúski mínu áfram. Kom þá á daginn að sjálfur Axl Rose hafði sungið eitt lag á sólóplötu Jones, Fire and Gasoline, árið 1989. Ian Astbury og Billy Duffy úr The Cult komu einnig við sögu á plötunni og sá fyrrnefndi var enn fremur annar upptökustjóranna. Matt Sorum lék sem kunnugt er með The Cult bæði áður og eftir að hann var í Guns N’ Roses. Á þessari ágætu plötu er meðal annars að finna ábreiðu af Bowie-slagaranum Suffragette City. Fyrir þá sem hafa áhuga á því.

Hitt var forvitnilegra, hvar lágu leiðir Jones og Taylor saman? Sex Pistols hafði komið, farið með himinskautum og kvatt áður en Duran Duran kom fram á sjónarsviðið í Bretlandi og markhópurinn allt annar. Hrátt pönk annars vegar og vinsældalistapopp hins vegar.

Jones rekst greinilega vel í hópi og skaut upp kollinum á ótrúlegustu stöðum á níunda áratugnum, meðal annars í gamanþættinum vinsæla Roseanne í Bandaríkjunum. Löngu áður en Roseanne sjálf var rekin úr þættinum. Þetta vita bara hans hörðustu aðdáendur; fleiri gætu munað eftir kappanum úr Ladies and Gentlemen, The Fabulous Stains, þar sem Diane Lane og Laura Dern voru í aðalhlutverkum. Jones lék þar sjálfan sig af fumleysi og aðdáunarverðu listrænu innsæi.

En jæja, hér erum við komin fulllangt út fyrir efnið. Hvernig er það, er enginn að ritstýra þessari grein? Jones músíseraði einnig með ófáum á þessum árum, svo sem Andy Taylor, gítarleikara Duran Duran.

Þannig hefur hann líklega komist í kynni við John Taylor. Maður þekkir mann sem þekkir mann, þið vitið. Vel hefur greinilega farið á með þeim félögum en Jones var kvaddur á vettvang löngu síðar, nánar tiltekið árið 2015, til að leika á gítar í einu lagi á breiðskífu Duran Duran, Paper Gods.

Matt Sorum og Duff McKagan (annar og þriðji frá vinstri) …
Matt Sorum og Duff McKagan (annar og þriðji frá vinstri) eru frægastir fyrir veru sína í Guns N’ Roses. AFP


Gerðu eina breiðskífu

Neurotic Outsiders sendu frá sér eina breiðskífu, árið 1996, sem bar nafn sveitarinnar. Þar er að finna slagara á borð við Nasty Ho, Always Wrong og Six Feet Under. Ári seinna kom út fimm laga EP-plata, Angelina, en eingöngu í Japan. Breiðskífunni var fylgt eftir með tónleikaferð um Bandaríkin og Evrópu, þar sem pönkbandið Fluffy hitaði upp. Amanda Rootes, söngkona sveitarinnar, minntist þeirrar ferðar með hlýju í samtali við tónlistartímaritið Select, ekki síst samverustundanna með Jones. „Ég kalla hann Stebba frænda. Hann minnir mig svo á frændur mína, sem eru svona glæpamannatýpur úr austurbænum.“

Sem kunnugt er þá komst Jones oft og iðulega í kast við lögin á yngri árum og hlaut nokkra dóma. Í endurminningum sínum, Lonely Boy, sem komu út 2016, fullyrðir Jones að Sex Pistols hafi bjargað honum frá því að verða ótíndur glæpamaður. Gítarinn tók við; hljóðfærið sem Jones kenndi sér á sjálfur. Sagan segir að hann hafi aðeins verið búinn að spila í þrjá mánuði á gítar þegar Sex Pistols kom fram á sínum fyrstu tónleikum. En pönkið snerist svo sem, eins og við munum, meira um einarða afstöðu en listrænt atgervi. Við hliðina á Sid Vicious var Jones líka eins og hver annar virtúós. Hann spilar líka flestar bassalínurnar á Never Mind the Bollocks, Vicious réð hreinlega ekki við það. En sá lúkkaði, maður lifandi. Sá lúkkaði!

Jones var lengra kominn í tónlist þegar Neurotic Outsiders voru og hétu. Verst að platan þeirra er víst með öllu ófáanleg.

Bandið lagði upp laupana árið 1997 en kom aftur saman á nokkrum tónleikum 1999 og að því er virðist 2006 líka. Ekkert hefur heyrst um frekara samstarf og mögulega tónleikahald en vel yrði án efa tekið á móti Neurotic Outsiders hérna uppi á skerinu. Ég meina, Pistols, Guns og Duran. Það er allt í málinu ... 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú einbeitir þér að skriffinsku og fjármálum í dag, eins og skuldum, tryggingamálum, lánum og erfðamálum. Sýndu hugrekki og vertu óhefðbundinn, nýjungagjarn og sérstakur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú einbeitir þér að skriffinsku og fjármálum í dag, eins og skuldum, tryggingamálum, lánum og erfðamálum. Sýndu hugrekki og vertu óhefðbundinn, nýjungagjarn og sérstakur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar