Crossfitkonan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sleit krossband á dögunum og missir því af keppnistímabilinu 2021 í crossfit. Tímabilið er rétt hafið en The Open hófst rétt fyrir helgi.
Sara greindi frá meiðslunum á samfélagsmiðlum í gær en hún hefði átt að klára fyrstu æfinguna í The Open um helgina.
„Ég upplifði mína verstu martröð í síðustu viku þegar ég meiddi mig í hnénu á æfingu. Ég fann eitthvað smella í hnénu þegar ég var að „split jerka“ og fór beint í myndatöku. Niðurstaðan var slitið krossband. Ég mun greina betur frá því hvernig framhaldið verður þegar tímalínan verður skýrari,“ skrifaði Sara.
Hún segist enn vera að meðtaka það sem gerðist og að hún muni ekki taka þátt í crossfittímabilinu. Hún verður að fara í aðgerð strax og við taka mánuðir af endurhæfingu.
Sara hefur náð gríðarlegum árangri í crossfit undanfarin ár og unnið The Open síðastliðin tvö ár og þrisvar sinnum á fjórum árum. Hún lenti í þriðja sæti á heimsleikunum árin 2015 og 2016.
I experienced my biggest nightmare last week when I hurt my knee in training. I felt a click in my knee during a split...
Posted by Ragnheidur Sara Sigmundsdottir on Monday, 15 March 2021