Bára Kristinsdóttir, ljósmyndari og eigandi sýningarrýmisins Ramskram, segir að hún hafi ekki verið tilbúin fyrir þá athygli sem hún fékk í kjölfar fyrstu einkasýningar sinnar árið 1995. Þar sýndi hún „svolítið djarfar nektarmyndir“ sem vöktu mikla athygli og voru gagnrýndar.
Bára er nýjasti gestur Dagmála, viðtalsþátta Morgunblaðsins. Brot úr viðtalinu má sjá hér að ofan.
„Ég var bara alls ekkert tilbúin fyrir þetta. Ég var ekki búin að hugsa mér að ég myndi fá svona mikla athygli út á þetta. Þegar ég horfi á þetta í baksýnisspeglinum eru þetta alls ekkert slæmir dómar,“ segir Bára.
Í þættinum fer hún yfir starfsferilinn sem spannar hátt í fjörutíu ár og stöðu samtímaljósmyndunar á Íslandi sem hefur breyst mikið síðan Bára hóf sinn feril í ljósmyndun á níunda áratug síðustu aldar.
„Ljósmyndun hefur breyst meira á þessum tíma en á nokkrum öðrum tíma í hennar sögu,“ segir Bára í viðtalinu.