Bandaríski leikarinn Yaphet Kotto er látinn, 81 árs að aldri. Kotto átti farsælan feril í Hollywood og er m.a. þekktur fyrir að hafa leikið í geimhrollvekjunni Alien árið 1979 og fyrir að gera Roger Moore lífið leitt sem illmenni í Bond-myndinni Live and Let Die frá árinu 1973.
Umboðsmaður Kotto greindi frá andlátinu, en leikarinn andaðist skammt frá Manila, höfuðborg Filippseyja, í gær. Ekki hefur verið greint frá banameini hans. Þetta kemur fram á vef New York Times.
Kotto, sem fæddist í New York árið 1939, átti rætur að rekja til Afríkuríkisins Kamerún. Hann hóf leiklistarferilinn 16 ára að aldri hjá Actors Mobile Theater Studio. Hann var 19 ára þegar hann steig fyrst opinberlega á svið í Shakespeare-verkinu Óþelló.
Hann var þekktur fyrir að leika harðjaxla í kvikmyndunum og hann hlaut m.a. Emmy-tilnefningu fyrir túlkun sína á harðstjóranum Idi Amin, sem var forseti Úganda, í sjónvarpsmyndinni Raid on Entebbe sem kom út árið 1976.
Nánar um feril Kottos á vef Wikipediu.