Söngleikurinn Níu líf sem fjallar um líf Bubba Morthens fer aftur á svið í Borgarleikhúsinu þann 10. apríl. Rúmt ár er liðið frá frumsýningu söngleiksins og eru leikarar nú mættir aftur til vinnu og æfa upp verkið.
Sýningar urðu aðeins þrjár áður en heimsfaraldurinn skall á. Rúmlega 16 þúsund leikhúsgestir hafa nú þegar tryggt sér miða á sýninguna að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu. Margir bíða því þess að sýningarnar hefjist að nýju.
Söngleikurinn fékk fimm stjörnur í Morgunblaðinu í fyrra en Þorgeir Tryggvason, gagnrýnandi Morgunblaðsins, gaf söngleiknum fullt hús.