Voldemort-leikarinn Ralph Fiennes sýndi rithöfundinum J.K. Rowling ákveðna samúð í viðtali í The Telegraph í vikunni. Höfundur Harry Potter-bókanna hefur verið sökuð um fordóma gagnvart transfólki. Fiennes tók ekki sjálfur afstöðu en sagði mikið hatur einkenna umræðuna.
„Ég skil ekki grimmdina sem er beint að henni,“ sagði breski leikarinn. Hann sagðist skilja að fólk yrði reitt þegar það deildi. Honum finnst hins vegar sú þörf að dæma fólk og ásaka órökrétt. Það sé áhyggjuefni hversu mikið hatur fólk sýnir og hversu þung orð falla þegar fólk er ekki sammála.
Fiennes þykir hafa tekið afstöðu með Rowling með ummælum sínum og er ekki á sömu línu og yngri leikararnir að því er fram kemur áf vef The Hollywood Reporter. Harry Potter-stjörnurnar Daniel Radcliffe, Emma Watson og Rupert Grint hafa öll lýst yfir stuðningi við transfólk.
Ummæli Rowling hafa ítrekað vakið mikla reiði og verið sögð fordómafull gagnvart transfólki. Rowling hefur til dæmis verið gagnrýnd fyrir að lýsa yfir stuðningi við konu sem taldi uppsögn sína byggða fordómum gagnvart skoðunum sínum á kyni. Hún var einnig gagnrýnd fyrir að læka tíst sem vísaði til transkvenna sem karla í kjólum. Rowling gagnrýndi þar að auki grein þar sem orðalagið „fólk sem fer á blæðingar“ var notað.