Einkaspæjarinn Dan Hanks hefur viðurkennt að hafa aflað upplýsinga um Meghan hertogaynju af Sussex ólöglega. Upplýsinganna aflaði hann fyrir breska fjölmiðilinn The Sun stuttu eftir að greint var frá því að Harry Bretaprins og Meghan væru farin að stinga saman nefjum.
Hanks sagði vefnum Byline Investigates að hann hefði afhent The Sun 90 blaðsíðna skýrslu um framtíðarmeðlim konungsfjölskyldunnar í október 2016.
Upplýsingarnar sem hann sendi ritstjóra Sun vörðuðu einkalíf Meghan, símanúmer ættingja hennar, upplýsingar um fyrrverandi eiginmann hennar og „kennitölu“ hennar (e. social security number). Hanks viðurkennir að hann hefði getað aflað upplýsinganna með löglegum hætti en hann hafi notað gagnagrunn sem ekki má afla gagna úr fyrir fjölmiðlun.
Í viðtali við The New York Times sagði Hanks að The Sun hefði gert sér að skrifa undir bréf sem kvað á um að hann myndi ekki afla gagnanna með ólöglegum hætti. Síðan hefðu blaðamenn komið aftur til hans og sagt honum að ef hann vildi fá einhverja vinnu ætti hann að halda áfram að gera það sem hann væri að gera og blikkuðu hann.
The Sun hefur neitað þessum ásökunum og ber fyrir sig bréfið sem Hanks skrifaði undir. Blaðið segir einnig að það hafi hætt að kaupa þjónustu af Hanks árið 2017 þegar hann var sendur í fangelsi eftir að hafa beitt kúgunaraðferðum í öðru óskyldu máli.
Meghan hertogaynja og Harry Bretaprins hafa verið í eins konar stríði við breska fjölmiðla síðastliðin tvö ár og bæði höfðað mál gegn þeim. Í viðtali sínu hjá Opruh Winfrey á dögunum ræddu þau einnig um hvernig breskir fjölmiðlar hefðu fjallað um þau undanfarin ár.
Í tilkynningu í dag sagði talsmaður hertogahjónanna að þau fögnuðu því að þessar upplýsingar um ólöglega gagnaöflun kæmu fram.
Umfjöllun The Guardian.
Umfjöllum New York Times.
Umfjöllun Byline Investigates.