Micheál Richardson var þrettán ára þegar móðir hans, leikkonan Natasha Richardson, lést. Í viðtali við The Times segist Richardson óska þess að geta rætt við móður sína sem fullorðinn einstaklingur.
Natasha Richardson lést eftir höfuðáverka sem hún hlaut á skíðum. Í fyrstu var hún með fullri meðvitund en tveimur dögum síðar var hún látin.
„Þetta var svo óvænt og skyndilegt. Þegar maður missir einhvern svona óvænt í tilviljunarkenndu slysi þá ruglar það mann í ríminu, hvort sem maður trúir á örlög eða ekki. Maður rígheldur í allar minningarnar hvort sem það er hláturinn hennar eða eldamennskan. Ég er þó ævinlega þakklátur fyrir að geta horft á kvikmyndirnar sem hún lék í,“ segir Richardson en uppáhaldsmyndirnar hans eru The Parent Trap.
„Hún var frábær móðir. Ég vildi að ég gæti átt fullorðinssamtöl með henni. Ég var algjör mömmustrákur og hún var besti vinur minn.“
„Það er svo auðvelt að sópa hlutum undir teppið og takast ekki á við hluti á borð við sorg. En svo ræðst þetta á mann úr öðrum áttum. Það að takast ekki á við hlutina getur teppt sköpunarkraftinn eða breytt manni í óviðkunnanlega manneskju,“ segir Richardson sem leikur nú ásamt föður sínum Liam Neeson í kvikmyndinni Made in Italy sem fjallar um ástvinamissi og endurspeglar á vissan hátt upplifun þeirra.