Leikkonan Sharon Stone segir að hún hafi verið plötuð til að sleppa því að klæðast brók við tökur á kvikmyndinni Basic Instinct. Í nýútkominni ævisögu sinni, The Beauty of Living Twice, opnar Stone sig um hvernig einn í framleiðsluteyminu hafi lofað henni að ekki myndi sjást í sköp hennar. Annað kom á daginn.
Í útdrætti sem Vanity Fair birti segir Stone frá því þegar hún sá píkuna á sér í fyrsta skipti í mynd í herbergi ásamt fullt af umboðsmönnum og lögfræðingum.
„Þannig sá ég fyrstu píkumyndina mína, löngu eftir að mér hafði verið sagt að „við sæjum ekki neitt, þú þarft bara að fara úr brókinni, þar sem það hvíta endurspeglar ljósið, þannig að við vitum að þú ert í brók“,“ skrifaði Stone.
„Það hafa margir haft skoðun á þessu málefni, en þar sem ég er manneskjan með píkuna sem um ræðir verð ég að segja: Skoðanir annarra eru kjaftæði. Þetta var ég og mín píka þarna,“ skrifaði Stone.
Eftir að hafa séð tökuna brjálaðist hún við leikstjórann, Paul Verhoeven, og hringdi svo í umboðsmanninn sinn Marty Singer. Singer sagði henni að þeir mættu ekki gera myndina á þennan hátt og það væri ólöglegt að taka hana upp svona.
Hún segist hafa talað við Verhoeven og sagt honum hvaða möguleikar væru í stöðunni. „Auðvitað neitaði hann því að ég hefði einhverja valkosti yfir höfuð. Ég var bara leikkona, bara kona, hvaða valkosti hefði ég? En ég hafði valkosti. Svo ég hugsaði og hugsaði, og ég valdi að leyfa þessu atriði að vera í kvikmyndinni. Af hverju? Því það var rétti kosturinn fyrir kvikmyndina, og persónuna, því þegar allt kom til alls, þá gerði ég það,“ skrifaði Stone.