Harry Bretaprins hefur verið ráðinn til starfa hjá startup fyrirtæki í Kísildalnum fræga í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sem um ræðir heitir BetterUp Inc. en það einbeitir sér að þjálfun og andlegri heilsu.
Fyrirtækið hefur stækkað ört undanfarin misseri að sögn Wall Street Journal.
Prinsinn staðfesti ráðninguna í tölvupósti við WSJ þar sem hann sagðist ætla sér að hafa áhrif á líf fólks. „Forvarnir í þjálfun færa okkur endalausa möguleika á persónulegum vexti, aukinni meðvitund og betra lífi,“ sagði Harry.
Harry mun starfa sem framkvæmdastjóri (e.chief impact officer) innan fyrirtækisins og mun starf hans fela í sér að koma að vöruþróun og hafa auga á tækifærum þar sem fyrirtækið getur sinnt góðgerðarstarfi.
„Þetta er þýðingarmikið og stórt starf,“ sagði forstjóri BetterUp Alexei Robichaux. Hann kynntist prinsinum í gegnum sameiginlegan vin þeirra síðastliðið haust.