Bridgerton-leikkonan Phoebe Dynevor er sögð vera í nánum samskiptum við grínistann Pete Davidson. Hin breska Dynevor er sögð hafa varið tíma með hinum bandaríska Davidson bæði í Bandaríkjunum og á Bretlandi.
Aðdáendur grínistans komu auga á Davidson í Altrincham grennd við bresku borgina Manchester á Englandi að því er fram kemur á vef Daily Mail. Davidson var sagður gista með vinum í Altrincham. Leikkonan Dynevor hefur búið hjá móður sinni í Manchester í heimsfaraldrinum.
Í febrúar birti Dynevor myndir sem voru teknar í Brooklyn í New York en Davidson býr þar. Leikkonan var í New York í tökum fyrir þættina Younger. Talsmaður Dynevor neitaði að tjá sig um málið.
Saturday Night Live-grínistinn hefur átt í mörgum samböndum við þekktar konur undanfarin ár. Hann var trúlofaður söngkonunni Ariönu Grande um tíma. Eftir það hefur hann verið með leikkonunni Kate Beckinsale, leikkonunni Margaret Qualley og ofurfyrirsætunni Kaiu Garber, dóttur Cindy Crawford.