Fyrirsætan Chrissy Teigen er hætt á samfélagsmiðlinum Twitter. Teigen hefur verið gríðarlega vinsæl á miðlinum og oft slegið í gegn með beinskeyttum og bráðfyndnum tístum sínum. Twitter-ferill hennar hefur þó ekki bara verið dans á rósum þar sem hún hefur einnig orðið fyrir mikilli gagnrýni og neteinelti á miðlinum.
„Nú er tími fyrir mig til að kveðja. Þessi miðill þjónar ekki lengur jákvæðum tilgangi í lífi mínu heldur neikvæðum, og ég held að núna sé réttur tími til að hætta,“ skrifaði Teigen sem er með 13 milljónir fylgjenda á Twitter.
Nýlega varð Teigen fyrir harðri gagnrýni á miðlinum þegar hún kynnti til sögunnar vegan umhverfisvæna hreinsiefnalínu í samstarfi við raunveruleikastjörnuna Kris Jenner.
Sumir fylgjendur hennar sökuðu hana um hræsni fyrir að gefa út vegan og umhverfisvænar vörur, þar sem hún borði kjöt og noti reglulega einkaþotu.