Faðir Britney Spears er illmennið í sögu poppsöngkonunnar. Britney óskaði nýlega eftir því að Jodi Montgomery yrði skipuð ótímabundinn lögráðamaður hennar í stað föður hennar. Aðili sem þekkir til stjörnunnar segir að líf Spears væri betra ef faðir hennar væri ekki inni í myndinni.
„Ef Jodi verður lögráðamaður hennar myndi margt breytast fyrir Britney. Hún er ekki að vinna vegna föður síns. Hún hefur sagt að hún vinni ekki svo lengi sem faðir hennar stjórnar lífi hennar,“ sagði heimildarmaður Page Six. „Britney treystir Jodi Montgomery, hún er frábær. Það yrði stór breyting til hins betra.“
Jamie hafði verið lögráðamaður dóttur sinnar í 12 ár þegar hann steig til hliðar vegna veikinda sinna í september 2019. Þá var Montgomery skipuð tímabundinn lögráðamaður Britney.
Britney er meðal annars sögð íhuga að segja Opruh Winfrey frá lífi sínu í anda viðtalsins sem Harry og Meghan fóru í. Heimildarmaðurinn segir þó að eins og staðan er núna gæti Spears ekki sagt sína sögu í viðtali. Ef faðir hennar væri ekki inni í myndinni væri staðan önnur.