Hvít-Rússum hefur verið meinuð þátttaka í Eurovision-keppninni í Hollandi.
Samband evrópskra sjónvarpsstöðva greindi frá því seint í gærkvöldi að „því miður, þá mun Hvíta-Rússland ekki taka þátt“ í keppninni í maí í borginni Rotterdam, þrátt fyrir að hafa sent inn nýja útgáfu af lagi sínu.
„Það var ákveðið að nýja lagið bryti einnig gegn reglum keppninnar,“ sagði í tilkynningu og var þar átt við pólitískan boðskap þess.
Mikil pólitísk ólga hefur verið í landinu síðan í ágúst í fyrra eftir að Alexander Lúkasjenkó var kjörinn forseti. Vestrænir erindrekar segja að kosningarnar hafi verið ólögmætar.
Ríkisútvarp Hvíta-Rússlands gagnrýndi ákvörðun Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva harðlega og sagði hana hneyksli því lagið fjallaði um kanínur.
„Þessi ákvörðun um að banna okkur að taka þátt í keppninni á sér pólitískar rætur,“ sagði Ivan Eismont, yfirmaður eurovision-nefndar landsins.