Helgi Björns skemmtir þjóðinni í beinni útsendingu í kvöld með tónleikum úr hlöðunni sinni ásamt Reiðmönnum vindanna og frábærum gestum. Eins og áður ætlar Helgi að syngja mörg af sínum þekktustu lögum í bland við perlur úr dægurlagasögunni.
Um er að ræða lokaþátt vetrarins af „Það er kominn Helgi“ og verður þetta 29. þátturinn í röðinni. Landsmenn geta fylgst með tónleikunum og skemmt sér heima á kvöldvöku Sjónvarps Símans, mbl.is og K100.
Þættir Helga byrjuðu sem ein prufuútsending fyrir ári og hefur sú útsending heldur betur undið upp á sig. Helgi Björnsson er ekki lengur bara einn vinsælasti söngvari landsins heldur er hann orðinn einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins, að því er kemur fram í tilkynningu. „Það er magnað að fylgjast með hvernig Helgi nær að toppa sig aftur og aftur og við finnum fyrir miklu og einlægu þakklæti frá áhorfendum og höfum gert allt þetta ár,“ segir Pálmi Guðmundsson hjá Sjónvarpi Símans í tilkynningunni.
Útsendingin hefst klukkan 21:10 og verður hægt að fylgjast með henni í Sjónvarpi Símans, í streyminu hér að neðan og á útvarpsrás K100.