Stjórnvöld í Hollandi hafa tekið ákvörðun um að 3.500 áhorfendur megi vera viðstaddir Eurovision í Rotterdam í maí. Keppnin verður hluti af tilraun hollenskra stjórnvalda sem hafa undanfarnar vikur prófað sig áfram með covid-vænt tónleikahald og viðburði.
Eurovision fer fram dagana 18.-22. maí í Ahoy-höllinni í Rotterdam. Áhorfendur þurfa að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf áður en þeim verður hleypt inn.
Skipuleggjendur tóku ákvörðun stjórnvalda fagnandi og sögðust senda frá sér nákvæmari útfærslu á keppninni á næstu vikum.
Í tilkynningu frá Eurovision kemur enn fremur fram að heilsa og öryggi áhorfenda verði í fyrirrúmi og að öll skipulagning taki mið af mjög ströngum sóttvarnareglum.
Nýlega héldu hollensk stjórnvöld 1.500 manna tónleika í grennd við Amsterdam og 5.000 manns fengu að mæta á landsleik Hollands síðastliðinn laugardag.
Þótt tilraunir stjórnvalda hafi gengið vel undanfarnar vikur framlengdi forsætisráðherrann Mark Rutte útgöngubann um þrjár vikur og gildir það nú fram til loka apríl.